Grilluð trufflu & black garlic nautalund með bakaðri kartöflu, grilluðum aspas og grænpiparsósu

Þessi máltíð var því algerlega á pari við þær sem þú færð á bestu steikhúsunum
Nautalundir eru svo sannarlega „geitin“ þegar kemur að kjöti á grillið. Þið fáið ekki meyrara og betra kjöt! Og svo þegar þær eru látnar liggja í trufflu og black garlic kryddlegi er ekkert sem skákar þeim. Meðlætið þarf ekki að vera flókið en samt fannst mér það þurfa að vera í smá lúxusgír líka. Ég útbjó trufflusmjör sem ég setti í kartöflurnar og nýtti svo restina af maríneringunni í rjómalöguðu grænpiparsósuna sem færði hana algerlega upp á næsta stig. Grillaður, ferskur aspas gerir allt betra og ákvað því að hafa hann líka með. Þessi máltíð var því algerlega á pari við þær sem þú færð á bestu steikhúsunum.
Innihald
- 2 stk. 200g nautasteikur í trufflu og black garlic maríneringu frá Kjarnafæði
- Grænpiparsósa, uppskrift fylgir
- 2 bökunarkartöflur
- Trufflusmjör, uppskrift fylgir
- ½ búnt af ferskum aspas
- 1 msk. ólífuolía
- Sjávarsalt
Aðferð
- Hitið ofninn í 200°C blástur. Takið steikurnar úr kæli og leyfið þeim að hvíla á borði.
- Setjið kartöflurnar í álpappír og bakið þær í ofninum í 1 klst.
- Útbúið trufflusmjörið og setjið til hliðar.
- Hitið grillið upp í 250°C, takið steikurnar úr umbúðunum og færið á disk. Geymið umbúðirnar með maríneringunni (sjá uppskrift af sósunni).
- Setjið aspasinn á disk og penslið með ólífuolíu. Stráið sjávarsalti yfir.
- Hafið lágan hita á einum brennara og setjið kartöflurnar þar yfir. Ég mæli með því að fullelda þær í ofni en svo er mjög gott að klára að elda þær á grillinu.
- Grillið steikurnar í 3-4 mín á hvorri hlið eða þangað til kjarnhiti nær 54 – 57°C – leyfið þeim svo að hvíla í ca. 10 mín.
- Á meðan steikurnar jafna sig er aspasinn grillaður, hann er tilbúinn þegar hann er farinn að taka lit og aðeins farinn að mýkjast.
- Berið steikurnar fram með grilluðum kartöflum og trufflusmjöri, aspasnum og grænpiparsósunni.
Innihald: Trufflusmjör
- 50g smjör, mjúkt
- 1 tsk. truffluolía
- Örlítið sjávarsalt
- 1 tsk. söxuð fersk steinselja
Aðferð
- Hrærið öllu saman og berið fram með kartöflunum.
Innihald: Grænpiparsósa
- 1 msk. græn piparkorn + örlítið vatn
- 1 dl. vatn blandað maríneringunni af kjötinu
- 1 teningur sveppakraftur
- 1 tsk. nautakraftur
- 2 dl. vatn
- 1 tsk. balsamedik
- 2 tsk. sojasósa
- 1 tsk. hunang
- Sósujafnari
- 1 dl. rjómi
- Salt og pipar ef vill
Aðferð
- Byrjið á því að setja piparkornin í skál og setjið smá vatn yfir. Setjið til hliðar.
- Takið steikurnar úr umbúðunum og leggið á disk. Setjið 1 dl. af vatni í umbúðirnar og hristið saman og setjið í skál. Skafið aðeins af kryddinu með sleikju ef eitthvað er eftir og setjið út í vatnið.
- Hellið vatninu með maríneringunni í pott og hitið að suðu, bætið þá sveppateningi og nautakraft út í og hrærið þar til krafturinn er uppleystur. Bætið þá 2 dl. af vatni saman við ásamt grænu piparkornunum (skiljið vatnið af þeim samt eftir) balsamediki, sojasósu og hunangi. Sjóðið niður um 1/3.
- Þykkið sósuna með sósujafnara og bætið rjómanum út í. Leyfið sósunni að malla á lágum hita á meðan kjötið jafnar sig.