Hvað er þorri og af hverju höldum við þorrablót?
Kynntu þér uppruna þorra, þorrablóts og matshefða sem hafa fylgt Íslendingum í aldir.
Um þorrann
Þorri er fjórði mánuður vetrarins í gamla íslenska tímatalinu og hefst með bóndadegi sem er föstudagur á bilinu 19.–26. janúar. Þorra lýkur á laugardegi og kallast sá laugardagur þorraþræll. Góa tekur við af þorra og byrjar á sunnudegi á bilinu 18.–24. febrúar og nefnist sá dagur konudagur. Þetta eru köldustu mánuðir ársins og áður fyrr, þegar kalt var í húsum og lítið til af mat og heyi, var talað um að „þreyja þorrann og góuna“ þar til glitti í vor og sumar. Orðasambandið „að þreyja þorrann“ hefur síðar fengið þá almennu merkingu að þola tímabundna erfiðleika.
Þorrablótið
Þorrablót eiga rætur sínar að rekja til síðari hluta 19. aldar. Íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn héldu þorrablót árið 1873 og til eru lýsingar á þorrablóti sem Fornleifafélagið í Reykjavík hélt árið 1881 til heiðurs Óðni, Þór, Frey og fleiri heiðnum guðum. Þar mun veislusalurinn hafa verið skreyttur fornum voðum, skjaldarmerkjum og öndvegissúlum með langelda á gólfinu.
Hvað þýðir orðið þorrablót?
Nafnorðið blót hefur nokkrar merkingar: 1. Guðsdýrkun (annarra guða en kristinna manna) 2. Fórnfæring 3. Fórnarveisla 4. Bölv/ragn. Sögnin að blóta hefur á sama hátt nokkrar merkingar: 1. Dýrka (sbr. blóta heiðin goð) 2. Fórna 3. Formæla/bölva og ragna. Þorrablótin eru sem sagt veisla til heiðurs þorranum að fornum sið og hafa ekkert með bölv og ragn að gera.
Þorramatur
Orðið þorramatur kemur inn í málið eftir miðja 20. öld þegar þorrablótin eins og þau eru í dag urðu sífellt útbreiddari siður. Súrmatur var aldrei hátíðamatur áður fyrr heldur gamall íslenskur hversdagsmatur í sveitum, allt fram á 20. öld. Að súrsa matvæli í mysu til að auka geymsluþol er ævagömul aðferð sem þróaðist hér á landi, að líkindum vegna skorts á salti. Skyrmysa féll til við skyrgerð þar sem hver bær hafði sitt sýruker og súrnum var haldið við með því að bæta súru skyri út í mysuna. Súrmatur er auðmeltur og hollur matur vegna vítamína og steinefna sem kjötmetið dregur í sig úr mysunni.
Þorra fagnað
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er að finna spaugilega frásögn af því sem sagður var forn siður. Bændur skyldu „fagna þorra“ með því að fara fyrstir á fætur að morgni bóndadags. Áttu þeir að fara út á skyrtunni einni saman og berir að neðan en klæða sig í aðra brókarskálmina og draga hana á eftir sér hoppandi á öðrum fæti kringum bæinn til að bjóða þorra velkominn. Um þetta fyrirbæri er aðeins til þessa eina heimild sem líklega er uppspuni en þetta þótti fyndið og því hefur fólk viljað trúa þessari sögu.


