Kryddaður uppstúfur
Uppstúfur er sósa sem er ómissandi hluti af jólamatnum á hverju ári
Uppstúfur, öðru nafni jafningur, er eitt af því sem fyllir jólaeldhúsið af kunnuglegum og notalegum ilmi. Í þessari útgáfu fær hann mildan kryddkeim af múskati og hvítum pipar, ásamt lauk og lárviðarlaufum sem láta mjólkina draga í sig hátíðlegt bragð áður en henni er blandað við smjörbolluna. Uppstúfur er sósa sem er ómissandi hluti af jólamatnum á hverju ári – mjúkur, hlýr og fullkominn með hangikjötinu og í tartalettur.
Uppskrift frá Gabríel Kristinn Bjarnason.
Innihald
- 1 stk. laukur
- 3 stk. lárviðarlauf
- 10 stk. piparkorn
- 100 g smjör
- 100 g hveiti
- 1 lítri mjólk
- Múskat
- Hvítur pipar
- Salt
Aðferð
- Byrjað er á því að sjóða upp mjólk með söxuðum lauk, lárviðarlaufum og piparkornum og henni leyft að standa í sirka klukkustund eftir suðu.
- Bræðið smjörið í potti við vægan hita, hrærið hveitinu vel saman við með písk þar til myndast hefur þykk blanda, svokölluð smjörbolla.
- Mjólkin er sigtuð og henni hrært saman við smjörbolluna og uppstúfurinn loks kryddaður með múskati,hvítum pipar og salti.


