Sænskar kjötbollur með heimagerðri kartöflumús og rjómasósu

Góður heimilsmatur klikkar ekki
Ef þig langar í góðan heimilismat en ert ekki alveg í stuði til þess að gera allt frá grunni þá eru sænsku kjötbollurnar frá Kjarnafæði algerlega fullkomnar. Vissulega væri hægt að fara alla leið og grípa með sér tilbúna sósu og kartöflumús en núna langaði mig bara að stytta mér hálfa leið. Heimagerða kartöflumúsin er bara svo miklu betri en þessi úr pakka. Ég gerði svo sósuna beint á pönnunni sem ég hafði brúnað tilbúnar bollurnar á. Það gefur svo ótrúlega gott bragð.
Þetta er ekta kvöldmatur til að græja þegar við komum þreytt heim úr vinnunni og það er rigning og rok og krakkarnir eiga eftir að lesa og fara í bað og… þið skiljið! Njótið vel.
Innihald
- 1 poki Sænskar kjötbollur frá Kjarnafæði
- 30g smjör
- 1 nautateningur
- 1 svínateningur
- 400ml vatn
- Sósujafnari
- Smá sósulitur, má sleppa
- 1 dl. rjómi
- Salt og pipar
- 1 tsk. rifsberjagel
Aðferð
- Takið kjötbollurnar úr frysti með góðum fyrirvara, þær þurfa ekki að vera alveg þiðnar en best er að þær hafi náð að þiðna að einhverju marki.
- Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru mjúkar í gegn. Á meðan þær sjóða græjið þið kjötbollurnar og sósuna.
- Setjið smjörið á pönnu og stillið á meðalhita. Setjið kjötbollurnar út á pönnuna og steikið á báðum hliðum þar til góð stökk húð hefur myndast á þær.
- Takið bollurnar af pönnunni og setjið þær í skál á meðan sósan er gerð.
- Hellið vatninu ásamt teningum út á pönnuna og hækkið hitann. Leyfið suðunni að koma upp, skafið upp botninn á pönnunni og hrærið vel. Leyfið soðinu að malla í 5 mín.
- Þykkið með sósujafnara, magn fer eftir því hversu þykka þið viljið hafa sósuna.
- Bætið við sultunni, rjómanum og smakkið til með salti og pipar. Leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur á pönnunni áður en þið setjið kjötbollurnar aftur út á pönnuna.
- Snúið ykkur að kartöflumúsinni.
- Berið bollurnar fram með kartöflumúsinni og góðri sultu.
Kartöflumús
- 1 kg af kartöflum
- 25g smjör
- 2 msk. sykur
- ½ - 1 dl. nýmjólk, jafnvel meira ef þið viljið hafa hana þynnri
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð
- Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru mjúkar í gegn.
- Hellið vatninu af kartöflunum og flysjið þær undir kaldri vatnsbunu. Setjið skrældar kartöflurnar aftur í pottinn.
- Setjið pottinn á hellu og kveikið undir, stillið á meðal hita. Setjið smjörið og sykurinn á kartöflurnar. Setjið örlítið salt og pipar.
- Byrjið á því að stappa kartöflurnar í pottinum með kartöflustappara. Hellið meiri mjólk út á ef þarf og smakkið til. Ég vil hafa mína frekar sæta en þið getið minnkað sykurmagnið ef þið viljið og bætt við meiru af salti og jafnvel öðrum kryddum ef vill.
- Það er einnig vel hægt að setja kartöflurnar í skál og nota handþeytara í verkið, mér finnst bara persónulega betra að gera hana í potti og hafa hana aðeins heitari.