Lambafille black garlic með kryddjurtasmjöri og hunangsbökuðu rótargrænmeti

Ótrúlega einfalt en fágað!

Þegar ég vil gera vel við okkur hjónin kaupi ég eitthvað gott kjöt sem ég annað hvort grilla eða græja í ofninum, það fer svolítið eftir veðrinu hvort ég geri. Mig langaði að prófa lambafille í black garlic kryddlegi frá Kjarnafæði og ákvað að hvíla grillið í þetta sinn og gera aðeins öðruvísi meðlæti. Ég bakaði rótargrænmeti í hunangslegi sem kom ótrúlega vel út. Ég ákvað einnig að prófa að sleppa hefðbundinni sósu og vera með kryddjurtasmjör í staðinn. Þvílíkt sælgæti, þessi máltíð verður lengi í minnum höfð. Ótrúlega einfalt en fágað – sætan frá grænmetinu passaði sérlega vel með kryddinu af kjötinu og kryddsmjörið tengdi svo allt saman. 

Innihald

  • Lambafille í black garlic kryddlegi frá Kjarnafæði

Aðferð

  1. Byrjið á því að taka kjötið úr kæli og leyfið því að bíða í allavega 30 mín. 
  2. Útbúið því næst kryddjurtasmjörið og setjið í kæli.
  3. Hitið ofninn í 200°C og snúið ykkur að hunangsbakaða rótargrænmetinu.
  4. Færið kjötið á bretti og saltið örlítið og piprið létt yfir. Skerið aðeins í fitulagið svo það verpist ekki þegar það er grillað. 
  5. Hitið grillið í góða stund, gott er að hafa það í ca. 250°C.
  6. Byrjið á því að grilla kjötið með fitu hliðina niður. Þegar puran er orðin vel grilluð og stökk, snúið þá kjötinu við og grillið áfram þar til það nær um 55°C í kjarnhita.
  7. Takið þá kjötið af grillinu og leyfið því að hvíla í 10 mín.
  8. Berið það fram með grænmetinu og kryddsmjörinu

Kryddjurtasmjör

  • 100g smjör
  • 1 hvítlauksrif, marið
  • 2 msk. söxuð fersk steinselja
  • 2 msk. saxað ferskt kóríander
  • Flögusalt og svartur pipar

Aðferð

  1. Bræðið saman smjörið og kryddið. Setjið kryddsmjörið svo í skál og geymið í kæli þar til það á að bera það fram.

Hunangsbakað rótargrænmeti

  • 1 poki regnbogagulrætur
  • ½ stór sæt kartafla
  • 50 g smjör
  • 40 g hunang
  • 1 tsk. hvítlauksduft
  • 2 tsk. þurrkuð steinselja
  • Flögusalt og svartur pipar

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 200°C. Skolið gulræturnar vel og þerrið. 
  2. Skerið gulræturnar og sætu kartöflurnar langsum í bita og setjið í skál.
  3. Bræðið saman smjör og hunang í litlum potti og bætið kryddum saman við. Hellið yfir gulræturnar og sætu kartöflurnar og veltið. Færið grænmetið yfir í eldfast mót og bakið í 25-30 mín.