Lambakótilettur í raspi upp á gamla mátann

Alveg eins og í gamla daga!

Það er eitthvað alveg ómótstæðilegt við gamaldags íslenskar lambakótilettur, hjúpaðar stökku raspi og steiktar þar til þær verða gullinbrúnar. Þennan rétt tengja margir við sunnudagsmáltíðir barnæskunnar – sígilt dæmi um mat sem nærir líkamann á sama tíma og hann yljar sálinni með góðum minningum.


Það sem gerir þetta enn betra er hversu einfalt og fljótlegt það er að reiða fram þessa dásamlegu máltíð. Þar sem kótiletturnar koma tilbúnar í raspi þá þurfti ég lítið annað að gera en að græja meðlætið. Ég ákvað að hafa það alveg eins og í gamla daga, nýjar smjörsteiktar kartöflur, grænar baunir, rauðkál, brún sósa og heimagerð rabarbarasulta. Og þar með flaug ég fjörutíu ár aftur í tímann!

Innihald

  • 1kg lambakótilettur í raspi frá Kjarnafæði
  • Salt og pipar
  • 50g smjör
  • 2 msk. olía
  • Nýjar íslenskar kartöflur, magn eftir smekk
  • 1 msk. smjör
  • Söxuð fersk steinselja
  • Sjávarsalt
  • Rauðkál
  • Grænar baunir
  • Rabarbarasulta
  • Brún sósa (uppskrift fylgir ef þið viljið gera sósu frá grunni)

Aðferð

  1. Þar sem kótiletturnar koma frosnar er gott að þýða þær rólega upp í kæli daginn áður en á að elda þær. 
  2. Byrjið svo á því að setja kartöflur í pott og kveikja undir.
  3. Hitið ofninn í 145°C með blæstri og takið fram steikarpönnu.
  4. Setjið 25g af smjöri og 1 msk. af olíu á pönnuna og hitið hana upp í rúmlega meðalhita. Setjið helminginn af kótilettunum á pönnuna og steikið þar til þær eru orðnar stökkar og gylltar. Snúið þeim við og steikið áfram. Þegar þær eru steiktar báðu megin, takið þær af pönnunni og setjið í eldfast mót eða á ofnplötu.
  5. Endurtakið með restina af kótilettunum.
  6. Setjið eldfasta mótið eða ofnplötuna með kótilettunum í ofninn og steikið áfram í 25 mín.
  7. Á meðan kótiletturnar eru í ofninum er sósan gerð. Það er auðvitað lítið mál að stytta sér leið og nota pakkasósu en það er annars lítið mál að gera brúna sósu frá grunni.
  8. Setjið baunir, sultu og rauðkál í skálar og leggið á borð.
  9. Þegar kartöflurnar eru soðnar er gott að skræla þær áður en þær eru steiktar en þess þarf ekki ef þær eru alveg nýjar. 
  10. Hitið smjör á pönnu og veltið kartöflunum upp úr smjörinu, stráið sjávarsalti og ferskri steinselju yfir.
  11. Takið þá kótiletturnar út ofninum og færið upp á fat. Berið fram með kartöflunum, brúnni sósu, grænum baunum, rauðkáli og rabarbarasultu. 

Einföld brún sósa

  • ½ laukur saxaður
  • 1 msk. smjör
  • 4 dl. vatn
  • 1 lambateningur (jafnvel 2 ef þið viljið meira bragð af sósunni)
  • Sletta af sojasósu
  • ½ tsk. timían
  • Salt & pipar
  • 1 dl. rjómi
  • Sósujafnari
  • Sósulitur ef vill

Aðferð

  1. Saxið laukinn og setjið smjör í pott og kveikið undir.
  2. Steikið laukinn þar til hann verður glær.
  3. Setjið þá vatnið út í ásamt lambatening, smá sojasósu og timían
  4. Leyfið suðunni að koma upp og smakkið soðið til með salti og pipar.
  5. Bætið sósujafnara út í til að þykkja sósuna, magn fer eiginlega eftir því hversu þykka þið viljið hafa hana. Setjið þá örlítið af sósulit út í og hrærið.
  6. Setjið rjómann út í að síðustu og berið fram með kótilettunum.